Blog Layout

Af stað í fjallgöngu....eða ekki

Anna Þorvalds • des. 18, 2022

Að stíga fyrsta skrefið út í náttúruna - Hugleiðingar um fjallgöngur

Af Stað….Í fjallgöngu Upp á Esju…….Eða ekki!


Ert þú ein/n af þeim sem horfir á fjöllin og finnst þau fjarska falleg? Svo þú segir fjallganga er ekkert fyrir mig?


Horfir á Esjuna og bara úff nei þetta fer ég ekki! Hefur jafnvel farið af stað og gefist upp á leiðinni og segir “Esjan er svo leiðinleg!” Þarmeð eru fjallgöngur erfiðar! Til hvers er farið í fjallgöngur og hvað þá jöklagöngur? Af hverju má ekki bara ganga á jafnsléttu? Þessar spurningar hef ég oft fengið eftir því sem fjallaáhugi minn eykst og svo upp á síðkastið hafa jöklar komið sterkir inn.


Ísland er svo stórkostlegt land sem býr yfir svo ótal mörgum möguleikum á fjall/fell göngum. Esjan er alls ekki það fjall sem byrjendur í fjallgöngu ættu að byrja á. Alveg sama í hvaða landshluta þú býrð, það eru ótal möguleikar á fell/fjall göngum.


Aftur að spurningunni af hverju að fara í fjallgöngu? Fjallganga er eitt form af hreyfingu og áhugamáli. Alveg eins og að fara í ræktina, hlaupa, golf og hestamennska. Það er með fjallgöngu eins og annað við það, að æfa sig og fara reglulega á fell/fjall æfir þú líkamann og hann aðlagast hækkuninni á fjallið/fellið. Allt sem þarf er í raun vilji og hugarfar. Það reynist oft erfiðast að koma sér úr sófanum og út til að byrja með.


Fyrir mér var það að finna þá hreyfingu sem hentaði líkama og huga mínum. Ég var búin að reyna ansi margt í hreyfingu, þ.m.t. allar líkamsræktarstöðvarnar og tíma þeirra. Einkaþjálfar, hóptímar og ég veit ekki hvað. Hlaup? já nei hnén þola það ekki. Neibb ekki gera sig fyrir mig.


Þangað til ég datt óvart inn á byrjendanámskeið í fjallgöngum. Það var mikið gert grín af mér þá hva kanntu ekki að ganga? Það er bara setja annan fótinn fram fyrir hinn! Fékk ég að heyra þegar ég var að lýsa því að það væri verið að kenna mér hvernig ég gæti fengið sem mest út úr hverju skrefi í fjallgöngu! Já það er hægt! Man vel eftir fyrstu göngunni minni upp Mosfellið (280m), ég hélt ég myndi andast á leiðinni upp. Leiðsögumaðurinn bara hljóp þetta eins og ekkert og ég bara bleik í framan af áreynslu! En vá hvað toppurinn verðlaunaði með útsýni og vellíðunar tilfinningunni að hafa komist þangað. Þetta var sko minn toppur! Það er einmitt þessi tilfinning vellíðunar sem ég sækist í þegar ég hef erfiðað við gönguna og komast á toppinn! Ég gafst ekki upp. Mér tókst þetta. Sama hversu toppurinn er stór eða lítill þetta er minn toppur.


Það er tilfinningin að hafa tekist áskorunin að fara á fjallið/jökulinn sem gefur mér trúna á sjálfa mig. Þetta yfirfæri ég svo á daglega lífið. Sko þú gast farið upp á topp á Móskarðshnúkum (eða hvaða topp sem er) þá geturu tekist á við þessa áskorun. 


Stundum verður kona fyrir því að vera topplaus! Nei nei er alltaf í fötum sko. En þá er veðrið þannig að ekki er hægt að komast á toppinn á því felli/fjalli sem ætlað var að fara upp. Það gerist líka. Þá hlakka ég til að fara aftur þegar veðrið er betra.


Eftir því sem tíminn líður þá kemur keppnisskapið inn og nú vil ég vera í betra formi til að njóta ferðalagsins upp og niður fjallið. Fyrst var það að komast upp á toppinn. Það var nægt markmið fyrir mig, enda er þetta mín líkamsrækt, meðan fjallganga er útsýnisferð fyrir aðra.


Náttúran sér um það að aftengja allt ruslið í hausnum á mér og tengja það jákvæða og uppbyggilega. Ég kem endurnærð heim eftir eina góða fjallgöngu. Eitthvað sem ég hef ekki kynnst eftir aðrar íþróttir. Sem segir mér að ég sé á réttri hillu, er besta útgáfan af sjálfri mér. Er fjallganga kannski líka eitthvað sem kemur þér til þess að vera besta útgáfan af þér?


Sjáumst á fjöllum. 😊


Eftir Anna Maria Thorvaldsdottir 17 Dec, 2022
Hlaðvörp og Útvarpsviðtöl - Viðtöl á K100
Stundar þú rækt fyrir heilann eins og líkamann?
Eftir Anna Maria Thorvaldsdottir 16 Dec, 2022
Margir eru oft að taka sig á í mataræðinu á lífsleiðinni og byrja og hætta í ræktinni. Það er ósýnileg krafa í samfélaginu að við skulum falla í ákveðið form og helst vera svona og hinsegin í laginu. Hvarvetna er verið að hvetja fólk til þess að hreyfa sig líkamlega og eru öll blöð og netmiðlar uppfull af uppskriftum af hollum mat ásamt heilræðum um hvernig best sé að koma sér af stað og hversu hollt það sé að hreyfa sig bæði fyrir líkama og sál.
Fleiri færslur
Share by: