Blog Layout

Stundar þú rækt fyrir heilann eins og líkamann?

Anna Maria Thorvaldsdottir • des. 16, 2022

Margir eru oft að taka sig á í mataræðinu á lífsleiðinni og byrja og hætta í ræktinni. Það er ósýnileg krafa í samfélaginu að við skulum falla í ákveðið form og helst vera svona og hinsegin í laginu. Hvarvetna er verið að hvetja fólk til þess að hreyfa sig líkamlega og eru öll blöð og netmiðlar uppfull af uppskriftum af hollum mat ásamt heilræðum um hvernig best sé að koma sér af stað og hversu hollt það sé að hreyfa sig bæði fyrir líkama og sál. 

Sálin! Einmitt er ekki minnst á að öðru leyti í öllum þessum miðlum hvernig rækt við getum gert fyrir sálina og heilann? Þessi ósýnilega krafa um útlit fer mjög misjafnlega í okkur og við náum að tileinka okkur þetta á mismunandi máta. Rétt eins og líkamleg líkamsrækt er mikilvæg heilsu okkar er þá ekki andleg rækt álíka nauðsynleg?

Skoðum þetta aðeins nánar. Á árum áður fór fólk í messu, sjónvarp var ekki í útsendingu á fimmtudögum né í júlí mánuði, áreitið var almennt mun minna og voru þær stundir sem fólk hafði til að velta hlutum fyrir sér, ákveða sín næstu skref og lesa sér til gagns og gamans fleiri. Einhvern veginn upplifi ég að eldri kynslóðir hafi haft minna áreiti þó vissulega hafa kröfur um árangur og það að standa sig alltaf verið til staðar. Áreitið og kröfurnar um árangur eru í dag orðnar mjög miklar og eru fleiri um sömu störf og eins halda fyrirtæki að sér höndum með aukna skatta og skyldur á herðunum. Þörfin fyrir að velta hlutunum fyrir sér og ná enn meiri árangri hefur alls ekki minnkað í krefjandi umhverfi sem og það að standa sig í starfi og innan veggja heimilisins. Hvar á að taka frá tímann til að skoða málin? Dagskrá stjórnanda í dag er kjaftfull og eru skyldurnar svo miklar að þeir gleyma sjálfum sér.

Þeir sem stunda reglulega líkamsrækt í hvað formi sem það nú er líður mun betur líkamlega og virðast sterkari í að takast á við meira en þeir sem ekki hreyfa sig reglulega. En hversu margir taka tíma frá til að rækta heilann, skoða hvert þeir stefna og hvernig hægt er að ná sem mestum árangri? Svo ekki sé talað um að kynnast því og vita hver þeir eru sem persónur og hvert þeir stefna sem einstaklingar en ekki aðeins í hlutverki sínu sem yfirmanns, starfsmanns, foreldri eða maka?

Þeir sem þekkja til stjórnendaþjálfunar vita árangurinn af því að gefa sér reglulega tíma og tækifæri til að fara í andlega rækt með stjórnendaþjálfa sem er þjálfaður til þess að viðmælandinn fái sem mest út úr þjálfuninni og upplifi hámarks árangur. Stjórnendaþjálfar gefa viðmælanda sínum 100% athygli, deila hugsunum, eru samstarfsfélagar, spyrja kröftugra spurninga, ögra, bjóða bein tjáskipti, hlusta og heyra, skapa meðvitund og viðmælandinn skapar og tekur sterka ábyrgð á eigin lífi.

Stjórnendaþjálfun er svar nútímans við öllu áreitinu og kröfunum um að skara fram úr, sýna hagnað og árangur. Því innra með hverjum og einum býr einmitt sá eiginleiki að geta skarað fram úr ef innri hindrunum er ýtt úr vegi. Ef einstaklingum er gefið tækifæri að styrkja styrkleika sína og er meðvitaður um veikleikana og veit hvað þarf aðstoð við þá er árangurinn handan við hornið.

Stjórnendaþjálfun er verkfærið fyrir heilaræktina.



Anna María Þorvaldsdóttir
Víð sýn á lífið.

Eftir Anna Þorvalds 18 Dec, 2022
Að stíga fyrsta skrefið út í náttúruna - Hugleiðingar um fjallgöngur
Eftir Anna Maria Thorvaldsdottir 17 Dec, 2022
Hlaðvörp og Útvarpsviðtöl - Viðtöl á K100
Fleiri færslur
Share by: